Gripið niður á heita-potta-svæðinu í Laugardalslaug

(Athugið, athugið. Þessa færslu tekur smá tíma að rússa í gegnum því hér þarf dálítið ímyndunarafl og þann hæfileika að "vilja-og-geta-sett-sig-inn-í-aðstæður.")

Persónurnar eru tvær kelsur. Sú sem ég ætla að kalla ungfrú S er mjög svarthærð og óranslituð, augljóslega uppfull af hydroxi-kötti. Auk þess búin að halda sér á lífi dálítið lengi með Hollywood-kex-kúrnum. Hin er fimm barna með eindæmum hæglát húsmóðir sem ekkert er að stressa sig á materíalískum hlutum, en langar þó að komast í form eftir 5. barnið. Hún er ungfrú J. Og þær munu vera fullkomnar útlits-andstæður.

S (hangir uppi á bakkanum, vill ekki vera ofan í pottinum): Jée minn einasti hvað skín í dag..

J (veltir því fyrir sér hvort þessi hrikalega díva beini orðunum að sér, óbreyttri húsmóður úr Hlíðunum): Ehh.. já..það er nú meira..hehh

S (létt mont-í-röddinni): Maður bara hefur tekið heilmikinn lit og ég er ekki búin að vera hérna nema max 45 mínútur.

J
(hefur lengi langað að spjalla við einhverja kvensuna í pottinum): Já, þú ert rosalega brún.. ee.. ertu alveg íslensk?

S
(augljóslega afar ánægð með spurninguna): Ég get nú barasta sagt þér það að ég er hálfur Spánverji!

J (þykir gaman að vera um það bil að eignast erlenda vinkonu): Nú! það er þá svoleiðis..

S
(langar skyndilega mjög að ræða uppruna sinn og ættfræðina): Ja það er nú bara þannig að ég er erfingi Andalúsíu-furstans Fernandez Mínero III í beinan föðurlegg.. hefurðu verið á Spáni?

J
(lífið er að byrja að gefa henni fimmu með þessum nýju kynnum): Nei ekkert þannig.. við fjölskyldan höfum farið nokkur sumur til Mallorca. Krakkarnir kunna vel við sig í hitanum og mér fellur umhverfið ekkert illa. Síðan bjóða ferðaskrifstofurnar upp á alls kyns meiriháttar skoðunarferðir fyrir hópa og svona. Hmm.

Ég gleymdi að lýsa sundfatnaðinum og ytra útliti sem skiptir máli. Ungfrú S var í sebra-bikinii, með nýsnyrtar tá- og handneglur. Þar að auki var hún með risastór, svört sólgleraugu á sér allan tímann, svo nær ómögulegt var að sjá hvert hún var að horfa. Ungfrú J var með sirka 8 tónum ljósari húð og útþaninn líkaminn sómaði sér ágætlega uppvafinn og úttroðinn í settlega blómóttum sundbol.  

Þarna kom smá þögn og mér fannst á kvensunum tveimur að þær væru báðar að bagsa við að finna upp á nýrri spurningu sem allra allra allra fyrst. Hver sekúnda gat skipt sköpum og valdið því að samtalið rynni út í sandinn. Þær voru eiginlega eins og tvær úthafseyjur sem tilbúnar voru að leggja allt í sölurnar til að koma upp brú sín á milli til þess að eyða einsemdinni. Og mynda einhvern díalóg. Ungfrú J kastaði fram næstu spurningu. Til lukku með það.

J
(hefur augljóslega garfað stutt í minninu eftir þessari): Hérna.. ert þú í einhverri líkamsrækt?
 
S
(önnur góð spurning, að hennar mati): Já, elskaaaaan mín. Ég var einmitt að koma úr spinning, fer svo yfirleitt beint í laugarnar.

J
(impressed): Já, er það? Er það ekkert erfitt?

S (áfram ánægð með farveg samtalsins): Nei, ég meina ekki þegar maður hefur verið þátttakandi í öll þessi ár.. svo er ég líka einkaþjálfari.

Þarna varð ungfrú J, hin óbreytta húsmóðir áhugasöm. Að vissu leyti urðu hér líka ákveðin vatnaskil í kynnum kvennanna, því að mínu mati hætti spjallið að vera yfirborðskennt með dass af óþægileika, sérlega fyrir áheyrendur og tók einhverja mjög dularfulla stefnu.

S (byrsti sig aðeins): Nei ég meina hvað heldurðu að ég sé gömul?

J
(smá brugðið yfir nýfundnum ásökunartón): Tja.. nú veit ég ekki... ætli þú sért ekki á aldur við dóttur mína?

S
(vill fá svar, lendingu og lokun, núna): Já, ég meina hvað er dóttir þín gömul?

J (aðeins að missa þráðinn og löngun til að tala við hinn konungborna hálfa-Spánverja sem var orðinn dálítið hostæl): Ja ég á nú þrjár en þessi sem ég er að vísa í er 35 ára..

S (gúterar það, kinkar stolt kolli, dómínerandi): Og heldurðu að það sé það sem ég er? 35 ára?

J
(orðin skelfd): Já ég myndi giska á það, milli 35 og 40 ára..

S
(skyndilega snappar eitthvað og ungfrú S stendur eldsnöggt upp, hrasar léttilega í leiðinni, rífur af sér sólgleraugun í miklu offorsi. Ég og börnin í lauginni fáum fullkomið slag þegar við sjáum hrukkum vafin augu hennar og dimmar þrár sem búa þar. Ungfrú S dregur andann mjög djúpt og hreint út sagt veinar neðanritaða ræðu yfir pottana og nærliggjandi svæði svo bergmálar um allan Laugardalinn):

ÉG GET NÚ BARA SAGT ÞÉR ÞAÐ AÐ ÞAÐ ER ENGINN HÆGÐARLEIKUR AÐ HLÚA AÐ "BODY" EINS OG ÞESSUM.

(þarna kom óborganleg handahreyfing þar sem frúin tillti sér fegurðardrottningarlega upp á hægri fót, stakk vísifingri hægri handar örsnöggt upp í munn sér, vætti hann létt og strauk honum svo frá ökkla upp á mitt læri. Og þá hélt hún áfram):

Á HVERJUM MORGNI SKOLA ÉG KLETTASALAT, LÆT VATN DRJÚPA AF ÞVÍ Í POTT - SÝÐ ÞAÐ VATN - OG DREKK. SVO BORÐA ÉG TVÖ HAFRA-KEX Í ÖNNUR MÁL. ÉG FÆDDIST EKKI SVONA EN ÉG DEY SVONA.

(grafar, grafar, grafarþögn í eitt augnablik 5-4-3-2-1 og svo):

OG ÉG SKAL BARA SEGJA ÞÉR ÞAÐ AÐ ÉG VERÐ FIMMTUG Á ÞRIÐJUDAGINN TAKK FYRIR!

(og í ennþá hærri og meira skerandi tíðni sem minnti helst á hrafn kláraði hún þátt sinn í lauginni):

OG VERTU MARGBLESSUÐ.

Og þar með strunsaði ungfrú S inn í klefana og sást ekki meira þann daginn. Á meðan þetta var að gerast höfðu andlit nærsvamlandi sundgesta breyst í fullkomin spurningamerki og það eina sem ég heyrði eftir mónólóginn tilkomumikla var þegar ungfrú J muldraði ofurlágt en eins og til afsökunar ofan í barm sér: hún er sko erfingi fursta frá Spáni..


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

JEMINN

Kolbrún (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 21:52

2 identicon

Vá, þessi saga bjargaði held ég bara deginum hjá mér.

Hápunktarnir eru að mínu mati þessir : "kelsur", "hydroxy-kött" og  "skola klettasalat"! Brjálæðislega fyndið að Miss S hafi orðið svona agíteruð, ætli það hafi ekki bara liðið yfir hana af æsingi inni í búningsklefa?

Soffa sys (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband