Hliðar-sjálfið Malta Kano skrifar frá Baden-Baden fangelsinu...

Við stóðum tvær á brautarpallinum. Ein í krúttgalla og rauðum skóm. Hin í sumarkjól með bera leggi. Prag blasti við í hillingum. Sýnina truflaði þó 10 evra seðillinn í vasa mínum. Kallaði á mig biðjandi. Þráði að láta skipta sér út fyrir nýja breska Vogue sem hann hafði séð í ritfangabúðinni á lestarstöðinni. Ég brást honum ekki og varð við kallinu. Hljóp af stað þrátt fyrir að stutt væri í að lestin kæmi. Stelpan í krúttgallanum skildi fullkomlega og vissi jafn vel og ég að slíkur kokteill sem nýtt Vogue og unaðsfagur landslag Þýskalands þjótandi framhjá á blússandi lestarhraða yrði seint toppað.
Ég heyrði hana kalla á eftir mér: ''Hlauptu'' !

Þrátt fyrir viðleitni afgreiðslumannsins í ritfangabúðinni náði hann að framkvæma allar hreyfingar á snigilshraða. Ég sá klukkuna bifast í brottfaratíma. Með hið gullslegna nýja Vogue blað tók ég á sprett niður á brautarpallinn á ný. Mér til skelfingar sá ég stelpu í krúttgalla og rauðum skóm troða sér með erfiðismunum inn í einn lestarvagninn niðri á brautarpallinum. Ég kastaði mér niður stigann í einu hendingskasti og horfði á krúttgallann öskra, nú af öllum lífs og sálar kröftum: ''Hlaaaaaaaaauuuptu'' !!
Lestin tók af stað með mig í hangandi eftirdragi. Krúttgallinn, með tárin í augunum, reyndi að tegja sig til mín út um lestarhurðina. Ég rétt náði að grípa andartak í hendina á henni áður en ég sá hendina hverfa með lestinni út úr lestarstöðinni. Eftir stóð stelpa í sumarkjól með bera leggi og eitt Vogue blað undir handleggnum.
Prag farin, áður en hún var nokkurn tíma komin ...

Við tók bið. Bið allra biða. Bið eftir næstu lest. Aleiga mín, mitt elskulega Vogue, reyndi að létta mér biðina. Eftir 5 klukkutíma setu kom loksins ný Prag lest. Ég kastaði mér inn í hana af þeirri örvæntingar-gleði sem biðin ýtir manni út í. Ég yes-aði í hljóði og hlakkaði til að finna landamæri Tékklands nálgast mig með hverri lestarmínútunni.
Lestin læddist af stað.

Þegar nokkuð var liðið á ferðina sé ég útundan mér trukkalegan Þjóðverja, íklæddum of-þröngum lestarvarðarbúning þröngva sér niður ganginn og heimta miða og vegabréf frá farþegum. Ég leitaði í litlu handtöskunni minni að miðanum mínum og vegabréfi og uppgötvaði mér til skelfingar að Krúttgalla-Björg hafði haldið á hvoru tveggja þegar ég hljóp af stað í hina örlagaríku Vogue-ferð. Mér til enn meiri skelfingar uppgötvaði ég að allt reiðfé mitt hafði farið í kaup á sushi, sleikjó og öðru smádrasli í leiðindarbiðinni á lestarstöðinni.
Ég bölvaði stöffaða sushi-inu í maganum á mér og dró upp mitt eina haldreipi: debet-kort.

Það er skemmst frá því að segja að kortið mitt virkaði ekki í litlu posa-vélina í allt of stóru og klunnalegum höndum lestarvarðarins. Grimm á svip rétti hún fram hendina og hreytti í mig frekjulega:
''Cash.''
Ég setti upp puppy-eyes og reyndi með englaröddu að útskýra vandræði mín:
''A girl in a cutie-outfit took my ticket to Prague...!’’
Vörturnar á kinnum lestarvarðar-skinkunnar skulfu er hún hrópaði: '
'Money or you go out, NOW''!
Ég bætti í puppy-augun:
''Please, miss train-woman, I have to go to Prague.''
Hvolpa-augun virtust bara reiða hana fremur en mýkja.
‘’Show me your passport’’ hrækti trukkurinn í mig af öskrandi vonsku.
Þarna læddist að mér sá grunur að ég væri komin í veruleg vandræði og það eina sem ég gat svarað var virðulegt:
‘’Fokk ...’’

Styrkri hendi þreif aflitaði trukkurinn í mig og ætlaði að rífa mig með sér. Ég klemmdi fingurnar um handskemilinn og öskraði. Allur vagninn var byrjaður að fylgjast með andartukt á undarleg viðskipti stelpunnar í kjólnum og stykkjaða-lestarvarðarins. Ég sá í augum þeirra allra að enginn hafði trú á sigri berleggjuðu stelpunnar. Ég fylltist krafti þeirra ‘’nánast-glötuðu’’ og náði að rífa mig lausa. Ég greip Vogue blaðið, barði því harkalega í lestar-trukkinn og hljóp af örvæntingu niður lestarganginn.

...

Baden-Baden fangelsið stendur á landamærum Tékklands og Þýskalands. Dvel ég þar nú, allslausari en nokkru sinni, enda var Vogue blaðið rifið af mér þegar lestarlöggurnar með varðhundana rifu upp hurðina á lestarklósettinu sem ég hafði læst mig inn á. Lestartrukkurinn heldur því fram að ég hafi barið sig. Ég sagði hins vegar yfirheyrslu löggunum sem satt var; Hún rakst í Vogue-blaðið mitt.

Ég heiti ekki lengur Vala heldur Malta Kano. Malta heldur kúlinu í fangelsinu annað en Vala. Vala eyddi einu hringingunni sinni í fangelsinu til Krúttgalla-Bjargar. Krúttgalla-Björg var að tana í Prag og hafði ekki tíma til að barma sér yfir óförum Völu/Möltu í Baden Baden fangelsinu. Þá grét Vala. Malta ætlar hins vegar að stinga rýtingnum sínum í Krúttgallann þegar hún losnar héðan.
Ef hún losnar héðan.
Ef ...



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guvvuuuð. Þetta var svooo skemmtileg frásögn svona í morgunsárið.

Ég hélt samt að ég mætti allt í Krúttugallanum, þar með talið tana ein í Prag og fá heimspekilegar vitranir fá Guði og stöffa í mig tékkneskum þjóðréttum.. ég keypti hann með því skilyrði.

Björg (IP-tala skráð) 30.8.2007 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband