25.2.2008 | 20:41
Ó þú grimma líf sem að mér hæðist ... !
Ég var í lestinni á leiðinni á flugvöllinn í Osló. Ég hlustaði á Neutral Milk Hotel í Ipodnum þegar slánalegur strákur með nördaleg gleraugu potar í mig. Ég hef greinilega verið að spila nokkuð hátt því strákurinn, í röndóttum bol og gollu með elgamunstri, spyr mig hvor af plötum NMH, On Avery Island eða In the Aeroplane over the sea, mér finnist betri plata.
Í framhaldi af því byrjuðum við að spjalla saman. Ég komst að því að hann var á leið heim með innanlandsflugi til Bergen eftir að hafa spilað á tónlistar-festivali í Osló. Hann komst að því að ég var á leið heim eftir brettaferð til Svíþjóðar. Hann sagðist heita Erlend Öye með ö-i. Eg sagðist heita Vala með vaffi. Hann potaði í snjóbrettið mitt. Ég potaði í gítarinn hans. Hann dáðist að snjóbrettameiðslum mínum. Ég dáðist að slitnum gítarhöndum hans. Hann sagði að ég hefði slegið góðan takt með conversunum mínum meðan ég hafi verið að hlusta á Ipodinn og hann hafi verið að mana sig upp í að spjalla við mig.
Ég varð feimin.
Eftir tékk-inn þar sem hann dobblaði norskan flugvallarstarfsmann að sleppa mér við yfirvigtarborgun bauð hann mér kaffi. Við settumst á afvikið borð á Gardemoen flugvelli og spjölluðum óðamála saman. Af nýjabrums-áfergju ræddum við saman eins og gamlir vinir um valkvíða, sushi, ást við fyrstu sýn, hljómsveitir, hljómsveitina hans ( sem hann undarlegt nokk kom sér undan að nefna ) bækur, lífið, Osló, Reykjavík o.fl. o.fl.. Ég sagði honum frá eldvörpunni. Hann heillaðist og lofaði hástemmdur að semja lag um það og senda mér.
Skyndilega mitt á milli þess að rífast um eilífðarspurninguna Bítlana eða Stones, verða sammála um að sushi staðurinn á Sporvejes-gade sé besti sushi staður í heimi og verða hissa á að einhver annar en maður sjálfur elski gömlu eigtís Alaska þáttaröðina Northern Exposure áttaði ég mig á að ég væri ástfangin. Uppgötvunin var óvænt en mér fannst hún fullkomlega eðlilega þarna á þeirri stund þar sem ég sat og drakk áfergjulega í mig strákinn í elgapeysunni.
Endirinn kom allt of fljótt eins og oft má verða um góðar stundir. Flugvélin frá Bergen var á förum. Kaffið var búið en orðin voru rétt byrjuð að renna. Hann kyssti mig á báðar kinnar. Ég lofaði honum að koma í heimsókn til Bergen og drekka með honum bjór. Á móti lofaði hann mér að koma til Íslands aftur ( hann kom hingað á Airwaves fyrir tveimur árum) og drekka með mér bjór.
Jafn skjótt og hann steig inn í líf mitt steig hann út úr því á ný. Hann vinkaði mér í landganginum. Svo hvarf strákur í elgapeysu inn í flugvél með hjarta mitt meðferðis.
Eina ráðið sem ég kunni við því andlega uppnámi sem það er að verða bæði ástfangin og lenda í ástarsorg á innan við þrem klukkustundum var að fara á barinn. Því sat ég einmanaleg á flugvallarbarnum, drakk gin og tónik og skipaði hjarta mínu höstuglega að taka sér tak.
Í flugvélinni á leið heim til Íslands ýtti ég á play á Ipodnum aftur eftir truflun gleraugnastráksins í lestinni. Neutral Milk Hotel hljómaði á ný. Ég horfði á Noreg hverfa í mistrið og endalausan hafflötinn taka við þegar línurnar í laginu In the Aeroplane over the sea hljómuðu:
What a beautiful dream
That could flash on the screen
In a blink of an eye and be gone from me
...
Hvernig örlögin leika sér að mér.
Nú sit ég fyrir framan makkann minn, googla í sakleysi mínu nafnið á plötunni sem hann sagðist einu sinni hafa gefið út: Unrest.
Erlend Öye maðurinn sem tók hjarta mitt með sér til Bergen er enginn annar en þessi:
Hann hefur meðal annars gefið út þessa plötu (sem hann sagði einmitt að væri ágæt þegar hann skoðaði Ipodinn minn án þess að minnast á tengsl sín við hana):
Einnig er hann í þessari hljómsveit:
Ó þú grimma líf. Hví hæðistu svona að mér.
Ég er farin til Bergen að finna hjarta mitt.
Kveðjur.
Athugasemdir
Mikið finnst mér dásamlegt að fá það leiðrétt sem alltaf hélt ég: að ástin væri mýta. Auk þess að vera ástfangin af Júróbandinu er ég nú orðin ástfangin af þinni mjög svo grimmilegri en rómantískri aðstöðu.
Eldvörpu-vinkonan Björg (IP-tala skráð) 26.2.2008 kl. 19:58
ó Vala, þetta er svo kjút.
Erna (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 11:24
Ekki vera leið elsku Vala mín - sumir verða aldrei ástfangnir!
3 klst. þykir þá bara nokkuð gott!
Og mundu,
lífið er bara rétt að byrja...
Bobby haircut (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 13:41
hey er að fara til bergen á þriðjudag. á ég að skila kveðju?
snowboarder (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 17:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.